Arsenal-klúbburinn og Gaman Ferðir í samstarf
25.7.2013 | 15:11
Eftir aðalfund Arsenal-klúbbsins á Íslandi fyrr í sumar var undirritaður samstarfssamningur milli klúbbsins og Gaman Ferða og WOW air. Með þessum samningi mun Arsenal-klúbburinn auka þjónustu sína við félagsmenn auk þess að tryggja það að þeir komast sem ódýrast út á leiki og í hópferðir.
Við í stjórn Arsenal-klúbbsins hlökkum mikið til og verður gaman að sigla inn í breytta tíma með nýju fólki. Við þökkum Þór og Braga hjá Gaman Ferðum fyrir að hafa tekið vel á móti okkur og verður þetta eflaust ánægjulegt samstarf sem félagsmenn munu njóta góðs af sagði Sigurður Enoksson, formaður klúbbsins, eftir undirskriftina.
Gaman Ferðir verða með þessum samstarfssamningi einn af aðalstyrktaraðilum Arsenal-klúbbsins á Íslandi og ætla meðal annars að styðja klúbbinn í því að halda áfram að vaxa og dafna. Gaman Ferðir í samstarfi með WOW air og Arsenal-klúbburinn á Íslandi ætla að vinna saman að því að fjölga í Arsenal-klúbbnum á Íslandi en á síðasta tímabili voru 1334 einstaklingar skráðir í klúbbinn. Hægt er að skrá sig í Arsenal-klúbbinn á Íslandi og fá allar nánari upplýsingar á vefsíðunni www.arsenal.is.
Það eru forréttindi að fá að vinna með öllu þessu góða fólki í Arsenal-klúbbnum en markmið okkar er auðvitað að bjóða félagsmönnum upp á flottar ferðir á Emirates Stadium á góðu verði. Minn fyrsti leikur í enska boltanum var einmitt á Highbury árið 1994 en þá sá ég Arsenal gera jafntefli við Blackburn. Það var rosaleg upplifun sagði Þór Bæring Ólafsson, framkvæmdastjóri Gaman Ferða, eftir undirskriftina.
Gaman Ferðir er með ferðir á alla heimaleiki Arsenal á komandi tímabili og fjórar hópferðir sömuleiðis. Allar ferðir næsta tímabils eru komnar í sölu á vefsíðu Gaman Ferða, www.gaman.is.
Meginflokkur: Enski boltinn | Aukaflokkar: Ferðalög, Íþróttir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.